Íshellir

Virkur í athugasemdum

Fyrir stutta síðan var mér boðið í heimsókn í nýja íshellinn á Langjökli. Ég varð strax mjög spenntur fyrir því að fara þangað enda hef ég alltaf verið mikið fyrir ís og þá sérstaklega piparmyntu. Ég hef oft heyrt um ísbíla en aldrei fyrr hafði ég heyrt um íshelli og hlakkaði mikið til. “Kannski er þetta eins og Dunkin Donuts – eitthvað nýtt dæmi á Íslandi” hugsaði ég á meðan ég slefaði yfir öllum tegundunum sem væru í boði.

Íshellir

Við vorum mjög spennt fyrir utan íshellinn

En þegar ég kom þangað varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Þarna var mikið af snjó og klaka, en enginn ís. Ég gekk á leiðsögumanninn og spurði hann hvað í fjandanum væri í gangi. Með tárin í augunum reyndi ég svo að segja honum að Þetta væri ekki alvörunni ís-hellir. En hann skildi mig ekki.

Það tók mig um það bil 30 mínútur að jafna mig. En þegar það var komið þá áttaði ég mig á því að þetta var allt saman ótrúlega flott. Búið var að grafa nokkur hundruð metra göng inn í jökulinn og ég var bókstaflega að ganga inn í honum. Þar var líka kapella og ótrúlega flott náttúruleg jöklasprunga sem búið var að lýsa upp. Svo voru leiðsögumennirnir skemmtilegir þannig að fyrir mig var þetta frábær upplifun í alla staði.

Jöklaspurnga

Ekkert smá falleg jöklasprunga

Þess vegna kom það mér mjög á óvart þegar ég kom heim að það fyrsta sem ég sá var frétt á visir.is þar sem það var bókstaflega verið að hrauna yfir íshellinn.

Íshellirinn

Þar var að finna eldri mynd og lýsingar á hellinum sem voru í engu samræmi við mína upplifun af honum nokkrum klukkustundum áður. Í fréttinni kom fram að ferðaþjónustufyrirtæki væru að gefast upp á hellinum og hætt að senda ferðamenn þangað. Að fólk þyrfti að ganga á eintómum vörubrettum vegna vatnsflóðs og að í göngunum væri grenjandi rigning vegna bráðnunar. Sem sagt allt í fokki.

Hvaða bull frétt er þetta?” hugsaði ég. Kannski var þetta svona fyrir einhverjum vikum en þá var allavega búið að bæta úr því og vel það. Það næsta sem ég hugsaði var að ég þyrfti að koma þeim til varnar. “Ef ekki ég – hver þá?“.

Það var þó eitt vandamál sem fylgdi þessu. Eina leiðin til að koma þeim til bjargar var að skrifa athugasemd við fréttin. En eins og við lærðum öll í fermingarfræðslu þá skrifar maður ekki athugasemdir á vefmiðla.

Fyrir mig var þetta stór ákvörðun. Ég hafði aldrei skrifað athugasemd á vefmiðill áður. “Fólk á eftir að missa álit á þér Pálmar” hugsaði ég. En samt, hvað var það versta sem gæti gerst? Þannig ég lét vaða. Ég skrifaði athugasemd. Þetta var ekkert merkilegt. Bara nokkrar setningar um upplifun mína í heimsókninni í hellinn. En það sem ég vissi ekki var að líf mitt var að fara að breytast.

Virkur

Ég var orðinn virkur í athugasemdum. VIRKUR Í ATHUGASEMDUM. Ég. Eftir eitt skipti!

Hvaða bull var þetta.

Eitt skipti er einu skipti of mikið bla bla“. Ég hafði oft heyrt þetta í sambandi við fíkniefni og kynsjúkdóma – en aldrei í sambandi við fréttamiðla. Virkur í athugasemdum greinilega bara meira smitandi en uppvakningafaraldrar og fuglaflensan. Hvað var ég að hugsa?

Þetta gerðist 3. júlí 2015 og líf mitt hefur breyst töluvert síðan þá. Ég hef til dæmis átt erfitt með að fá vinnur og að komast inn í skóla. Margir vinir mínir hættu að tala við mig. Og þegar ég hef boðið stelpum á stefnumót biðja þær mig oftast um að framvísa hreinu athugasemda-vottorði. Sem ég á ekki og mun aldrei eignast. Ég á einfaldlega minni möguleika í lífinu en áður.

En þar sem að samfélagið er ekki tilbúið til þess að taka á móti mér aftur þá hef ég engan hvata til að láta af þessari hegðun minni og gerast betri borgari á nýjan leik. Þangað til það gerist mun ég því halda áfram uppteknum hætti.

Ég mun skrifa athugasemd á hverja einustu frétt sem birtist á dv.is og visi.is það sem eftir er. Og þá fyrst sjáið þið hvernig það er að vera raunverulega VIRKUR í athugasemdum!