Snapchat og Instagram

Snapchat og Instagram stigin

Í dag eiga allir Instagram og Snapchat1. Misjafnt er hvað fólk notar þetta mikið en flestir eiga það þó sameiginlegt að þegar þeir byrja er erfitt að hætta.

En af hverju er erfitt að hætta? Af hverju er ekki nóg fyrir fólk að setja inn mynd öðru hvoru þegar því langar? Af hverju þurfum við að setja inn myndir á hverjum degi og jafnvel oft á dag?

Flestir tölvuleikir í dag snúast um það að safna stigum. Og flestir tölvuleikir í dag eru mjög ávanabindandi. En málið með Instagram og Snapchat er að við erum líka að safna stigum þar, jafnvel þó að þau sjáist ekki. Þau eru ósýnileg en samt til staðar. Og hvar safnast þau upp? Í huganum hjá okkur og fólkinu í kringum okkur. Við getum kallað þetta “Andlegu Snapchat og Instagram stigin“.

Leikurinn er einfaldur

Þú setur inn mynd og fólk sér að þú ert að gera eitthvað skemmtilegt. Þú setur inn fleiri myndir og verður háð eða háður viðbrögðunum. Smám saman ertu svo farinn að setja inn nýja mynd í hvert sinn sem þú gerir eitthvað annað en að sitja ein eða einn heima hjá þér.

Og þegar þú ert kominn á þann stað þá byrja vandræðin. Þá er erfitt að hætta. Því ef þú hættir þarna þá halda allir að þú sitjir ein eða einn heima hjá þér að gera ekki neitt. Því ef þú værir ekki ein eða einn heima hjá þér að gera ekki neitt þá værir þú löngu búin/nn að setja inn mynd.

Þess vegna þarft þú að taka mynd í hvert skipti sem þú svo mikið sem stígur út úr húsi, sérð strætó eða borðar kleinuhring. Og hvort sem ykkur líkar það betur eða ver – þá erum við öll föst í þessum leik2.

Stigatalningin

Þegar þú setur inn mynd á Snapchat eða Instagram færð þú ákveðið mörg stig í huganum á fólki eftir tegund myndarinnar. Því lengra sem þú ert frá því að gera ekki neitt – því fleiri stig færðu.

Við Íslendingar erum einfaldir og því er mjög auðvelt að flokka allar myndir sem við tökum í 14 flokka.

Með góðri aðstoð frá vinum mínum kemur hér í fyrsta skipti nákvæm upptalning á öllum þessum flokkum og stigunum sem fást fyrir þá:

-1 stig

Mynd sem einhver annar tekur
Ekki sjálfsmynd

Í dag tekur þú sjálfsmyndir. Þú lætur ekki einhvern annan taka mynd af þér. Fyrir nokkrum árum var það töff en ekki í dag. Ef þú tekur myndina ekki sjálf/ur getur ekkert bjargað þér, ekki einu sinni bleik regnhlíf.

Sama hvar þú ert og sama hvað hvað þú ert að gera – þá lækkaru í áliti ef þú setur inn mynd í þessum flokk og færð 1 mínus stig.

0 stig

Sjálfsmynd í tölvunni
Tölvan

Þetta er lægsta form sjálfsmyndar sem þú getur tekið. Einn heima í tölvunni. Þú ert í rauninni ekki að gera neitt. Eitthvað sem allir geta “gert”, alltaf. Enginn er heillaður og flestum er sama.

Þú setur inn mynd en færð engin stig og kemur út á sama eða verri stað.

0,5 stig

Barna- eða hundasjálfsmynd
Hundamynd

Barna og hundamyndir geta verið flottar og skemmtilegar. En það var fyrir svona 7 mánuðum, allir eru orðnir þreyttir á þeim. Ef þú átt barn eða hund er passlegt að setja inn eina mynd á viku. Um leið og þær eru orðnar fleiri ertu farin/nn að reyna á þolmörk.

Þú getur því unnið þér inn hálft stig fyrir fyrstu hunda eða barnamynd vikunnar. Eftir það þarftu að vera sterk/ur og halda aftur af þörfinni fyrir því að setja inn fleiri myndir.

1 stig

Matarmynd
Matarmynd

Að borða er það minnsta sem þú getur gert, á eftir því að gera ekki neitt. Allir borða 3-5 sinnum á dag. Ef þú ert kominn á þann stað að þurfa að sýna öllum að þú sért að borða, bara svo fólk haldi ekki að þú sért að gera ekki neitt, þá ertu kominn á mjög erfiðan stað í leiknum. Það getur tekið vikur eða mánuði að vinna sig upp úr þeirri gryfju aftur.

Þú færð 1 stig fyrir matarmynd á meðan fólk hefur þolinmæði.

3 stig

Sjálfsmynd af þér úti
Útimynd

Hér ert þú kominn út og byrjaður að spila leikinn af alvöru. Ef það er einhvern tímann tilefni til þess að taka mynd þá er það þegar þú ert kominn 2-3 skref út fyrir dyrnar heima hjá þér.

Það vefst ekki fyrir neinum að þú ert sko ekki heima hjá þér að gera ekki neitt og færð því 3 andleg stig samstundis.

5 stig

Sjálfsmynd með einum vin
VinurÞú átt vin og hann vill hanga með þér. Þú ert skemmtileg og eftirsótt manneskja. Þið takið upp myndavélina og skellið inn sitt hvorri sjálfsmyndinni. Svo byrjar þögla kalda stríðið um það hvort ykkar fær fleiri like.

Þú færð lágmark 5 stig fyrir hverja mynd sem þú ert ekki ein/nn á.

10 stig

Mynd með mörgum vinum
MargirVinir

Ef einhver var ekki sannfærð um að þú værir skemmtileg manneskja eftir að hafa séð mynd af þér með einum vin, þá getur sama manneskja verið nokkuð viss eftir að hafa séð mynd af þér með mörgum vinum. Því fleiri vinir því betra.

Hér ertu farin að hrúga inn stigum og nærð í fyrsta skipti tveggja stafa tölu.

12 stig

Sjálfsmynd á ströndinni eða í sólbaði
StrandamyndÍslendingar elska sól og sólbað. Samt erum við oft fólkið sem brennum og svitnum mest í sólinni. Þó við séum blaut, með sand á fingrunum og sjáum varla á skjáinn fyrir birtu breytir það því ekki að um leið og við komumst í sól þá tökum við mynd.

Og allir elska hana – 12 stig fyrir sjálfsmynd í sól.

15 stig

Fossamynd
FossEf það er eitthvað sem Íslendingar elska meira en sól þá eru það fossar. Ef við sjáum foss þá tökum við sjálfsmynd. Það er jafn mikil staðreynd og sú staðreynd að hlutir falla til jarðar þegar þeim er sleppt. Gleymdu fjöllum, vötnum og hrauni – ef þú ert á leiðinni út í náttúruna þá skalt þú finna þér foss!

Þetta eru hæstu stigin sem þú getur fengið á Íslandi (nema þú hittir einhvern frægan) – heil 15 stykki.

20 stig

Mynd með frægum
CelebÞað skiptir ekki máli hvort það er veðurfréttamaðurinn á RÚV eða Russell Crowe. Ef einhver hefur séð manneskjuna áður þá er hún fræg. Og ef þú ert ekki viss getur þú líka skrifað texta með myndinni og útskýrt fyrir fólki hver manneskjan er.

Fræg manneskja og þú ert með örugg 20 stig.

25 stig

Útlandasjálfsmynd
ÚtlöndHérna erum við loks komin í þungavigtar myndirnar. Um leið og þú nærð sjálfsmynd af þér í útlöndum ertu búin að toppa allar myndir sem þú hefur tekið hingað til. Í raun þarft þú að taka 25 matarmyndir til að fá jafn mörg stig og þú færð fyrir eina útlandasjálfsmynd. Og það er ansi langur tími í eldhúsinu.

25 stig fyrir útlandasjálfsmynd og það er jafnvel of lítið gefið.

30 stig

Mynd með hættulegu dýri
DýramyndTil að toppa útlandamynd þarftu að ná mynd af þér með hættulegu dýri. Gæði myndarinnar fara algerlega eftir því hversu líklegt dýrið er til þess að geta gengið frá þér.

Þú færð ekki 30 stig fyrir mynd af þér með kind – En þú færð örugg 30 stig fyrir mynd af þér með górillu. Munum bara að sýna náttúrunni og öllum lifandi verum virðingu.

40 stig

Fallhlífar- eða köfunarsjálfsmynd
HákarlFyrir venjulegt fólk er þetta hæsta stig sem þú getur náð. Þú tekur ekki betri sjálfsmynd en fyrir ofan eða neðan yfirborð jarðar. Þeir sem þora, þeir skora (40 stig).

Valur er gott dæmi um það hvernig á að nota Instagram. Hann er með eina mynd. Og á þessari einu mynd er hann bæði í fallhlífastökki og í köfun (með hákarli). Hann myndi ekki setja inn matarmynd á Instagram þó það væri nautasteik með sósu. Hann hefur gefið 5 manneskjum leyfi til að fylgja sér og það eru Bill Gates, David Attenborough, Morgan Freeman, ég sjálfur og Ólafur Ragnar Grímsson.

40 stig í einni tilraun.

50 stig

Sjálfsmynd í geimnum
Geimmynd Svo ég viti til er ég eini Íslendingurinn sem hefur náð sjálfsmynd í geimnum. Það mætti því slá því fram að ég hafi sigrað Instagram leikinn. En því miður er ekki flass framan á símanum mínum (og það er mjög erfitt að taka sjálfsmynd þegar maður snýr símanum öfugt), þannig að það sést ekki mikið á myndinni. En samt sést nóg til að sjá að þetta er ég í geimnum.

Þarna kemst ég í hóp með aðeins örfáum mönnum og konum sem hafa tekið sjálfsmyndir í geimnum. 50 stig takk fyrir – sem er töluvert meira en Neil Armstrong fékk fyrir að láta einhvern annan taka mynd af sér á tunglinu (-1 stig).

Þá er það komið. Upptalning á flokkunum fjórtán. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er þessi leikur raunverulegur.

Og við erum öll að taka þátt.

1Samkvæmt rannsókn Riddarans nota 100% Íslendinga bæði Snapchat og Instagram (Úrtak: 7 manns).
2Allar 7 manneskjurnar í úrtakinu voru fastar í leiknum.

(Allar myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi eigenda)