Crazy Frog Bro

Bara venjulegt froskamyndband

Ég held að þessir bræður séu stofnendur og eigendur Youtube:

Áður en Youtube var til var enginn vettvangur fyrir virkilega góð myndbönd að njóta sín. Eina leiðin til að geta séð myndbönd var að bíða í viku eftir næsta þætti af “Fyndin Fjölskyldumyndbönd“. En þegar þessir bræður höfðu gert þetta myndband áttuðu þeir sig á því að þeir voru með eitthvað merkilegt í höndunum sem þeir gátu hvergi birt. Og þeir ákváðu að breyta framgangi sögunnar.

Jújú þeir áttuðu sig á því að þeir gætu auðveldlega sent þetta í Fyndin Fjölskyldumyndbönd og unnið 10.000 USD verðlaunaféð. En þeir voru að hugsa stærra en það, þetta eru business strákar. Þeir vildu ekki að eingöngu þeir útvöldu sem voru með áskrift að Stöð 2 fengu að njóta þess – þetta myndband var fyrir allan heiminn.

Allir þekkja söguna síðan þá. Þeir stofnuðu Youtube (held ég) í kringum myndbandið sem er nú orðin þriðja vinsælasta vefsíða heims. Í dag eru þeir líklega milljarðamæringar eftir að hafa selt Youtube til Google fyrir 1,6 milljarð USD árið 2006. Einhvern tímann gerði fólk grín að þessu myndbandi en ég sé engan hlægja núna.

Tengingin
Þetta myndband hefur líka sérstaka þýðingu fyrir okkur bræðurna. Strákarnir í myndbandinu eru jafnaldrar okkar og þeir litu nákvæmlega eins út og við gerðum. Og ekki bara það heldur náðu þeir sömu mýkt og við í hreyfingum og dansi. Hefðum við verið fyrri til þá ættum við 800 milljarða á mann í dag – við létum bara ekki vaða.

Síðan þá höfum við alltaf verið fúlir út í þessa gæja. Ef þið sjáið þessi 10.532 dislike sem eru á myndbandinu þá get ég fullvissað ykkur um að við eigum tvö þeirra. Lífið er kapphlaup og þetta snýst allt um að vera fyrstur. Við gerðum 15 myndbönd sem ÖLL voru betri en þeirra myndband, en ekkert þeirra náði vinsældum. Við vorum alltaf bara þekktir sem bræðurnir sem voru að reyna.

“Þetta er flott hjá ykkur. En hafið þið séð Crazy Frog bræðurna? Þeir eru GEGGJAÐIR!”

Ég sendi þeim póst reglulega til að láta þá vita að þeir skuldi mér pening. Þeir lofa alltaf öllu fögru en svo kemur ekkert.

Boðskapurinn í þessari sögu er sá að láta vaða. Ef þú ert með hæfileika eða hugmynd láttu hana verða að veruleika. Því um leið og þú hikar eru einhverjir bræður út í heimi búnir að hafa af þér 800 milljarða.