Svefn

Fjarþjálfun í svefni

Allir vita að svefn er lykilatriði í því að ná góðum árangri í lífinu. Hvort sem það er í líkamsrækt, skóla eða einkalífinu.

Fólk getur bæði hamast í ræktinni og legið yfir bókunum en ef svefninn er ekki í lagi þá gerist ekkert. Allar rannsóknir hafa sýnt að það er óþarfi að æfa til að ná árangri í líkamsrækt, óþarfi að lesa til að ná árangri í skóla og óþarfi að mæta í vinnu til að ná árangri í einkalífinu. Allt sem þú þarft að gera er að sofa vel.

Þeir sem þekkja til mín vita að ég er sérfræðingur í svefni. Fólk hefur fylgst með mér með aðdáun sofna á stefnumótum og fundum í vinnunni og öfundað mig af þessum hæfileika. Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum árum að gerast einkaþjálfari í svefni.

Þetta fór rólega af stað á meðan fólk var að venjast hugmyndinni. Allir höfðu heyrt um einkaþjálfara á líkamsræktarstöðvunum en enginn hafði áður heyrt um svefn-einkaþjálfara.

Ég stóð yfir fólki meðan það svaf og aðstoðaði með andardrátt og líkamsstellingar. Hrósaði fyrir fallegar hrotur, slökkti á vekjaraklukkunni á morgnana og svo framvegis. Smám saman varð þetta þekktara og á endanum var ég orðinn vinsælasti svefn-einkaþjálfari landsins. Ég var á forsíðum blaðanna, allir vildu sofa hjá mér og fólk var að ná virkilegum árangri.

En nú á sama tíma og tækninni hefur fleygt fram er eftirspurnin orðin of mikil. Ég hef bara ekki lengur undan. Þess vegna hef ég fyrstur á Íslandi ákveðið að bjóða upp á fjarþjálfun í svefni!

Svefn-Fjarþjálfun

Í þjónustunni er margt innifalið:

 • Ég fylgist með ykkur sofa í gegnum Skype.
 • Símhringingar á klukkutíma fresti alla nóttina til að spyrja hvernig gengur (Munið að hafa kveikt á símanum).
 • Geisladiskur þar sem ég hef sungið inn allar þekktustu vögguvísurnar (Bí-bí og blaka, Sofðu unga ástin mín og Lömbin þagna).
 • Eitthvað app þar sem þú getur reiknað út meðaltal.
 • Mánaðarlegir útreikningar á svefn-prósentu.

  Flestir eru að sofa í kringum 7-8 tíma á sólarhring sem er eingöngu um 30% svefn en hjá mér hefur fólk náð að hækka svefn-prósentu sína upp í allt að 60-70% af sólarhringnum. Það þýðir að þú getur sagt bless við alla baugana og bókstaflega gleymt því hvernig það er að geyspa!

  Einnig fylgir bæklingur með mörgum góðum svefn ráðum:

 • Ekki vakna við vekjaraklukkuna klukkan 8. Það á alltaf að sofa til hádegis.
 • Ekki hlusta ef einhver segist ætla að reka þig úr vinnu eða skóla. Þú ert að ná árangri.
 • Mætið vel sofin í próf í skólanum. Ef prófið er snemma um morgun (t.d. kl. 10:00) er mjög áhættusamt að ætla sér að vakna um miðja nótt (kl. 09:30) og mæta með óstarfshæfan heila í prófið. Best er að sofa til hádegis og leysa prófið með fullri einbeitingu síðustu 30 mínúturnar.
 • Eignastu heilbrigðar fyrirmyndir. Helst Þyrnirós eða Óla Lokbrá.
 • Ekki eiga hana (fugladýrið).
 • Athugið að þetta prógram er sérstaklega gott fyrir þá sem hafa hingað til kallað sig “A týpur“.

  Vilt þú ná alvöru árangri í lífinu?

  Hafðu samband og sofðu betur strax í dag!