Kjúklingabringan

Síðasta sumar kynntist ég miklum meistara. Nikulás heitir hann og er með skemmtilegri strákum sem ég hef kynnst. Áhugasamur og einlægur og alltaf tilbúinn í gott spjall. Við unnum saman á Mývatni og hann lífgaði mikið upp á dagana þar.

Nikulás

Nikulás á góðri stund í íbúðinni

En þrátt fyrir alla sína kosti þá var hann samt ekki fullkominn. Flestir hafa að minnsta kosti einn galla og þar var hann engin undantekning. Í hans tilfelli var það eldamennskan. Það var ekki það að hann væri lélegur kokkur. Meira svona hvað hann ákvað að elda og hvenær.

Við bjuggum tíu saman í lítilli íbúð við Mývatn. Við lifðum saman í sátt og samlyndi og tókum tillit til hvors annars. En það var þó eitt sem klikkaði ekki. Í hvert sinn sem við hin vorum skriðin upp í rúm til að fara að sofa, þá sótti Nikulás sér pönnu og byrjaði að steikja beikon.

Þetta gerðist alltaf nákvæmlega á miðnæti. Og beikonið mátti sko ekki vera mjúkt, það þurfti alltaf að vera harðbrasað.

Beikonlás

Nikulás að elda beikon

Og það er ekki eins og við höfum verið með eitthvað loftræstikerfi í eldhúsinu. Þar voru tveir litlir gluggar, sem hann passaði sérstaklega að hafa lokaða. Þannig að öll brælan fór beint inn í herbergið mitt. Og örugglega hjá hinum líka. En í mínu herbergi var brælan samt svo mikil að ég gat ekki ímyndað mér að það væri einhver bræla eftir til að fara í hin herbergin líka.

Og svona liðu dagarnir. Enginn gat sofið og öll íbúðin angaði af beikoni. Rúmfötin, handklæðin og nærfötin – nefndu það.

En eftir að hafa búið saman í 10 daga þá ákváðum við að halda húsfund. Og þar var ákveðið, algerlega ótengt Nikulási og beikoninu hans, að það mætti ekki að steikja beikon eftir klukkan 22.00 á kvöldin. Þetta var samþykkt með níu atkvæðum á móti einu og þar með var þetta vandamál úr sögunni.

En þessi saga fjallar samt ekki um beikonbræluna.

Þessi saga er um aðra lykt:

Þetta kvöld sat ég í herberginu mínu með lokaða hurð. Ég var að vinna í tölvunni þegar ég byrja að finna slæman fnyk ágerast inn í herberginu mínu. Á sama tíma er kallað á mig úr eldhúsinu:

Nikulás: Pálmar getur þú nokkuð aðstoðað mig aðeins?

Ég var ekki að nenna því að vera truflaður og kallaði á móti í gegnum hurðina:

Pálmar: Hvað ertu að pæla? Og hvaða lykt er þetta?
Nikulás: Hefur þú oft eldað kjúkling? Getur þú hjálpað mér að meta hvort það sé í lagi með þessa kjúklingabringu?

Um leið og hann sagði þetta þá mundi ég eftir því að hafa séð staka kjúklingabringu í glærum poka í litlu hvítu plastglasi inn í ísskáp mörgum dögum áður.

Guð minn góður, ég veit strax að þessi kjúklingabringa er það ónýtasta sem til er” hugsaði ég og stóð upp. Þegar ég opnaði hurðina var það eins og að ganga á vegg. Þetta var viðbjóðslegasta lykt sem ég hafði fundið. Ég á í raun erfitt með að lýsa henni en rotnandi hvalkjöt í holræsi er örugglega nálægt því.

Og þá sá ég sjón sem ég mun aldrei gleyma. Þarna stóð Nikulás, meistari, með nefið á sér bókstaflega ofan í plastglasinu með kjúklingabringunni, nýbúinn að fjarlægja hana úr pokanum.

Okei gubb” hugsaði ég, “Hvað er að og hvernig í fjandanum fer hann að þessu án þess að æla??“. Það næsta sem gerist er að hann lítur upp og horfir á mig rosalega óviss á svipinn.

Nikulás: Ég er ekki viss hvort það sé í lagi með þessa bringu eða ekki.

Ekki viss?? Hvað meinar hann?!?” hugsaði ég. Fyrir mér var þetta jafn augljóst og að maður ætti ekki að borða úldið fuglshræ sem maður finnur út í fjöru.

Nikulás: Getur þú fundið lyktina og hjálpað mér að dæma?
Pálmar: Finna lyktina? Ég finn alveg lyktina hingað! Hentu þessari bringu núna!
Nikulás: Já en… ég er ekkert búinn að eiga hana það lengi, held ég.

Svipurinn á honum gaf vel til kynna hvað þessi bringa skipti hann miklu máli. Hann var ekki tilbúinn til þess að gefa hana eftir svo auðveldlega. Ég steig einu skrefi nær og leit ofan í glasið. Bringan var fjólublá á litinn.

Pálmar: Þessi kjúklingabringa er fjólublá! Þú þarft að henda henni núna!!

Ísskápur

Djúpt inn í þessum ísskáp hafði bringan verið falin

Ég sá hvernig eymdin færði sig yfir andlitið á honum þegar hann áttaði sig á stöðunni. Og ég skildi hann. Við vorum öll fátækir námsmenn. Við lifðum á höfrum og skyri (og beikoni). Að kaupa kjúklingabringu var eitthvað sem við leyfðum okkur í mesta lagi einu sinni yfir sumarið. Og það átti enginn að þurfa að upplifa það að henda sinni eigin bringu.

Stundin þegar hann gekk með bringuna sína í átt að ruslafötunni var sorgleg. Ég stóð þétt við bakið á honum og var með tárin í augunum þegar ég sá hana hverfa í ruslið.

Ég veit ekki hvað bringan var búin að vera í ísskápnum lengi. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að Nikulás hafi átt þessa bringu í mörg ár áður en hann kom á Mývatn. Einhverskonar gælubringa sem hann tekur með sér hvert sem hann fer. Sem gerir endirinn á sögunni bara enn sorglegri ef eitthvað er.

Mývatnssveit

Svona var ástandið í Mývatnssveit eftir kvöldið

Þennan dag má segja að ég hafi bjargað lífi Nikulásar. Hann þakkaði mér ekki fyrir það þá því hann var svangur og ekki að hugsa skýrt. En í dag þakkar hann mér lífsgjöfina í hvert sinn sem ég hitti hann.

Virkur í athugasemdum

Fyrir stutta síðan var mér boðið í heimsókn í nýja íshellinn á Langjökli. Ég varð strax mjög spenntur fyrir því að fara þangað enda hef ég alltaf verið mikið fyrir ís og þá sérstaklega piparmyntu. Ég hef oft heyrt um ísbíla en aldrei fyrr hafði ég heyrt um íshelli og hlakkaði mikið til. “Kannski er þetta eins og Dunkin Donuts – eitthvað nýtt dæmi á Íslandi” hugsaði ég á meðan ég slefaði yfir öllum tegundunum sem væru í boði.

Íshellir

Við vorum mjög spennt fyrir utan íshellinn

En þegar ég kom þangað varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Þarna var mikið af snjó og klaka, en enginn ís. Ég gekk á leiðsögumanninn og spurði hann hvað í fjandanum væri í gangi. Með tárin í augunum reyndi ég svo að segja honum að Þetta væri ekki alvörunni ís-hellir. En hann skildi mig ekki.

Það tók mig um það bil 30 mínútur að jafna mig. En þegar það var komið þá áttaði ég mig á því að þetta var allt saman ótrúlega flott. Búið var að grafa nokkur hundruð metra göng inn í jökulinn og ég var bókstaflega að ganga inn í honum. Þar var líka kapella og ótrúlega flott náttúruleg jöklasprunga sem búið var að lýsa upp. Svo voru leiðsögumennirnir skemmtilegir þannig að fyrir mig var þetta frábær upplifun í alla staði.

Jöklaspurnga

Ekkert smá falleg jöklasprunga

Þess vegna kom það mér mjög á óvart þegar ég kom heim að það fyrsta sem ég sá var frétt á visir.is þar sem það var bókstaflega verið að hrauna yfir íshellinn.

Íshellirinn

Þar var að finna eldri mynd og lýsingar á hellinum sem voru í engu samræmi við mína upplifun af honum nokkrum klukkustundum áður. Í fréttinni kom fram að ferðaþjónustufyrirtæki væru að gefast upp á hellinum og hætt að senda ferðamenn þangað. Að fólk þyrfti að ganga á eintómum vörubrettum vegna vatnsflóðs og að í göngunum væri grenjandi rigning vegna bráðnunar. Sem sagt allt í fokki.

Hvaða bull frétt er þetta?” hugsaði ég. Kannski var þetta svona fyrir einhverjum vikum en þá var allavega búið að bæta úr því og vel það. Það næsta sem ég hugsaði var að ég þyrfti að koma þeim til varnar. “Ef ekki ég – hver þá?“.

Það var þó eitt vandamál sem fylgdi þessu. Eina leiðin til að koma þeim til bjargar var að skrifa athugasemd við fréttin. En eins og við lærðum öll í fermingarfræðslu þá skrifar maður ekki athugasemdir á vefmiðla.

Fyrir mig var þetta stór ákvörðun. Ég hafði aldrei skrifað athugasemd á vefmiðill áður. “Fólk á eftir að missa álit á þér Pálmar” hugsaði ég. En samt, hvað var það versta sem gæti gerst? Þannig ég lét vaða. Ég skrifaði athugasemd. Þetta var ekkert merkilegt. Bara nokkrar setningar um upplifun mína í heimsókninni í hellinn. En það sem ég vissi ekki var að líf mitt var að fara að breytast.

Virkur

Ég var orðinn virkur í athugasemdum. VIRKUR Í ATHUGASEMDUM. Ég. Eftir eitt skipti!

Hvaða bull var þetta.

Eitt skipti er einu skipti of mikið bla bla“. Ég hafði oft heyrt þetta í sambandi við fíkniefni og kynsjúkdóma – en aldrei í sambandi við fréttamiðla. Virkur í athugasemdum greinilega bara meira smitandi en uppvakningafaraldrar og fuglaflensan. Hvað var ég að hugsa?

Þetta gerðist 3. júlí 2015 og líf mitt hefur breyst töluvert síðan þá. Ég hef til dæmis átt erfitt með að fá vinnur og að komast inn í skóla. Margir vinir mínir hættu að tala við mig. Og þegar ég hef boðið stelpum á stefnumót biðja þær mig oftast um að framvísa hreinu athugasemda-vottorði. Sem ég á ekki og mun aldrei eignast. Ég á einfaldlega minni möguleika í lífinu en áður.

En þar sem að samfélagið er ekki tilbúið til þess að taka á móti mér aftur þá hef ég engan hvata til að láta af þessari hegðun minni og gerast betri borgari á nýjan leik. Þangað til það gerist mun ég því halda áfram uppteknum hætti.

Ég mun skrifa athugasemd á hverja einustu frétt sem birtist á dv.is og visi.is það sem eftir er. Og þá fyrst sjáið þið hvernig það er að vera raunverulega VIRKUR í athugasemdum!

Fjarþjálfun í svefni

Allir vita að svefn er lykilatriði í því að ná góðum árangri í lífinu. Hvort sem það er í líkamsrækt, skóla eða einkalífinu.

Fólk getur bæði hamast í ræktinni og legið yfir bókunum en ef svefninn er ekki í lagi þá gerist ekkert. Allar rannsóknir hafa sýnt að það er óþarfi að æfa til að ná árangri í líkamsrækt, óþarfi að lesa til að ná árangri í skóla og óþarfi að mæta í vinnu til að ná árangri í einkalífinu. Allt sem þú þarft að gera er að sofa vel.

Þeir sem þekkja til mín vita að ég er sérfræðingur í svefni. Fólk hefur fylgst með mér með aðdáun sofna á stefnumótum og fundum í vinnunni og öfundað mig af þessum hæfileika. Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum árum að gerast einkaþjálfari í svefni.

Þetta fór rólega af stað á meðan fólk var að venjast hugmyndinni. Allir höfðu heyrt um einkaþjálfara á líkamsræktarstöðvunum en enginn hafði áður heyrt um svefn-einkaþjálfara.

Ég stóð yfir fólki meðan það svaf og aðstoðaði með andardrátt og líkamsstellingar. Hrósaði fyrir fallegar hrotur, slökkti á vekjaraklukkunni á morgnana og svo framvegis. Smám saman varð þetta þekktara og á endanum var ég orðinn vinsælasti svefn-einkaþjálfari landsins. Ég var á forsíðum blaðanna, allir vildu sofa hjá mér og fólk var að ná virkilegum árangri.

En nú á sama tíma og tækninni hefur fleygt fram er eftirspurnin orðin of mikil. Ég hef bara ekki lengur undan. Þess vegna hef ég fyrstur á Íslandi ákveðið að bjóða upp á fjarþjálfun í svefni!

Svefn-Fjarþjálfun

Í þjónustunni er margt innifalið:

 • Ég fylgist með ykkur sofa í gegnum Skype.
 • Símhringingar á klukkutíma fresti alla nóttina til að spyrja hvernig gengur (Munið að hafa kveikt á símanum).
 • Geisladiskur þar sem ég hef sungið inn allar þekktustu vögguvísurnar (Bí-bí og blaka, Sofðu unga ástin mín og Lömbin þagna).
 • Eitthvað app þar sem þú getur reiknað út meðaltal.
 • Mánaðarlegir útreikningar á svefn-prósentu.

  Flestir eru að sofa í kringum 7-8 tíma á sólarhring sem er eingöngu um 30% svefn en hjá mér hefur fólk náð að hækka svefn-prósentu sína upp í allt að 60-70% af sólarhringnum. Það þýðir að þú getur sagt bless við alla baugana og bókstaflega gleymt því hvernig það er að geyspa!

  Einnig fylgir bæklingur með mörgum góðum svefn ráðum:

 • Ekki vakna við vekjaraklukkuna klukkan 8. Það á alltaf að sofa til hádegis.
 • Ekki hlusta ef einhver segist ætla að reka þig úr vinnu eða skóla. Þú ert að ná árangri.
 • Mætið vel sofin í próf í skólanum. Ef prófið er snemma um morgun (t.d. kl. 10:00) er mjög áhættusamt að ætla sér að vakna um miðja nótt (kl. 09:30) og mæta með óstarfshæfan heila í prófið. Best er að sofa til hádegis og leysa prófið með fullri einbeitingu síðustu 30 mínúturnar.
 • Eignastu heilbrigðar fyrirmyndir. Helst Þyrnirós eða Óla Lokbrá.
 • Ekki eiga hana (fugladýrið).
 • Athugið að þetta prógram er sérstaklega gott fyrir þá sem hafa hingað til kallað sig “A týpur“.

  Vilt þú ná alvöru árangri í lífinu?

  Hafðu samband og sofðu betur strax í dag!

  Snapchat og Instagram stigin

  Í dag eiga allir Instagram og Snapchat1. Misjafnt er hvað fólk notar þetta mikið en flestir eiga það þó sameiginlegt að þegar þeir byrja er erfitt að hætta.

  En af hverju er erfitt að hætta? Af hverju er ekki nóg fyrir fólk að setja inn mynd öðru hvoru þegar því langar? Af hverju þurfum við að setja inn myndir á hverjum degi og jafnvel oft á dag?

  Flestir tölvuleikir í dag snúast um það að safna stigum. Og flestir tölvuleikir í dag eru mjög ávanabindandi. En málið með Instagram og Snapchat er að við erum líka að safna stigum þar, jafnvel þó að þau sjáist ekki. Þau eru ósýnileg en samt til staðar. Og hvar safnast þau upp? Í huganum hjá okkur og fólkinu í kringum okkur. Við getum kallað þetta “Andlegu Snapchat og Instagram stigin“.

  Leikurinn er einfaldur

  Þú setur inn mynd og fólk sér að þú ert að gera eitthvað skemmtilegt. Þú setur inn fleiri myndir og verður háð eða háður viðbrögðunum. Smám saman ertu svo farinn að setja inn nýja mynd í hvert sinn sem þú gerir eitthvað annað en að sitja ein eða einn heima hjá þér.

  Og þegar þú ert kominn á þann stað þá byrja vandræðin. Þá er erfitt að hætta. Því ef þú hættir þarna þá halda allir að þú sitjir ein eða einn heima hjá þér að gera ekki neitt. Því ef þú værir ekki ein eða einn heima hjá þér að gera ekki neitt þá værir þú löngu búin/nn að setja inn mynd.

  Þess vegna þarft þú að taka mynd í hvert skipti sem þú svo mikið sem stígur út úr húsi, sérð strætó eða borðar kleinuhring. Og hvort sem ykkur líkar það betur eða ver – þá erum við öll föst í þessum leik2.

  Stigatalningin

  Þegar þú setur inn mynd á Snapchat eða Instagram færð þú ákveðið mörg stig í huganum á fólki eftir tegund myndarinnar. Því lengra sem þú ert frá því að gera ekki neitt – því fleiri stig færðu.

  Við Íslendingar erum einfaldir og því er mjög auðvelt að flokka allar myndir sem við tökum í 14 flokka.

  Með góðri aðstoð frá vinum mínum kemur hér í fyrsta skipti nákvæm upptalning á öllum þessum flokkum og stigunum sem fást fyrir þá:

  -1 stig

  Mynd sem einhver annar tekur
  Ekki sjálfsmynd

  Í dag tekur þú sjálfsmyndir. Þú lætur ekki einhvern annan taka mynd af þér. Fyrir nokkrum árum var það töff en ekki í dag. Ef þú tekur myndina ekki sjálf/ur getur ekkert bjargað þér, ekki einu sinni bleik regnhlíf.

  Sama hvar þú ert og sama hvað hvað þú ert að gera – þá lækkaru í áliti ef þú setur inn mynd í þessum flokk og færð 1 mínus stig.

  0 stig

  Sjálfsmynd í tölvunni
  Tölvan

  Þetta er lægsta form sjálfsmyndar sem þú getur tekið. Einn heima í tölvunni. Þú ert í rauninni ekki að gera neitt. Eitthvað sem allir geta “gert”, alltaf. Enginn er heillaður og flestum er sama.

  Þú setur inn mynd en færð engin stig og kemur út á sama eða verri stað.

  0,5 stig

  Barna- eða hundasjálfsmynd
  Hundamynd

  Barna og hundamyndir geta verið flottar og skemmtilegar. En það var fyrir svona 7 mánuðum, allir eru orðnir þreyttir á þeim. Ef þú átt barn eða hund er passlegt að setja inn eina mynd á viku. Um leið og þær eru orðnar fleiri ertu farin/nn að reyna á þolmörk.

  Þú getur því unnið þér inn hálft stig fyrir fyrstu hunda eða barnamynd vikunnar. Eftir það þarftu að vera sterk/ur og halda aftur af þörfinni fyrir því að setja inn fleiri myndir.

  1 stig

  Matarmynd
  Matarmynd

  Að borða er það minnsta sem þú getur gert, á eftir því að gera ekki neitt. Allir borða 3-5 sinnum á dag. Ef þú ert kominn á þann stað að þurfa að sýna öllum að þú sért að borða, bara svo fólk haldi ekki að þú sért að gera ekki neitt, þá ertu kominn á mjög erfiðan stað í leiknum. Það getur tekið vikur eða mánuði að vinna sig upp úr þeirri gryfju aftur.

  Þú færð 1 stig fyrir matarmynd á meðan fólk hefur þolinmæði.

  3 stig

  Sjálfsmynd af þér úti
  Útimynd

  Hér ert þú kominn út og byrjaður að spila leikinn af alvöru. Ef það er einhvern tímann tilefni til þess að taka mynd þá er það þegar þú ert kominn 2-3 skref út fyrir dyrnar heima hjá þér.

  Það vefst ekki fyrir neinum að þú ert sko ekki heima hjá þér að gera ekki neitt og færð því 3 andleg stig samstundis.

  5 stig

  Sjálfsmynd með einum vin
  VinurÞú átt vin og hann vill hanga með þér. Þú ert skemmtileg og eftirsótt manneskja. Þið takið upp myndavélina og skellið inn sitt hvorri sjálfsmyndinni. Svo byrjar þögla kalda stríðið um það hvort ykkar fær fleiri like.

  Þú færð lágmark 5 stig fyrir hverja mynd sem þú ert ekki ein/nn á.

  10 stig

  Mynd með mörgum vinum
  MargirVinir

  Ef einhver var ekki sannfærð um að þú værir skemmtileg manneskja eftir að hafa séð mynd af þér með einum vin, þá getur sama manneskja verið nokkuð viss eftir að hafa séð mynd af þér með mörgum vinum. Því fleiri vinir því betra.

  Hér ertu farin að hrúga inn stigum og nærð í fyrsta skipti tveggja stafa tölu.

  12 stig

  Sjálfsmynd á ströndinni eða í sólbaði
  StrandamyndÍslendingar elska sól og sólbað. Samt erum við oft fólkið sem brennum og svitnum mest í sólinni. Þó við séum blaut, með sand á fingrunum og sjáum varla á skjáinn fyrir birtu breytir það því ekki að um leið og við komumst í sól þá tökum við mynd.

  Og allir elska hana – 12 stig fyrir sjálfsmynd í sól.

  15 stig

  Fossamynd
  FossEf það er eitthvað sem Íslendingar elska meira en sól þá eru það fossar. Ef við sjáum foss þá tökum við sjálfsmynd. Það er jafn mikil staðreynd og sú staðreynd að hlutir falla til jarðar þegar þeim er sleppt. Gleymdu fjöllum, vötnum og hrauni – ef þú ert á leiðinni út í náttúruna þá skalt þú finna þér foss!

  Þetta eru hæstu stigin sem þú getur fengið á Íslandi (nema þú hittir einhvern frægan) – heil 15 stykki.

  20 stig

  Mynd með frægum
  CelebÞað skiptir ekki máli hvort það er veðurfréttamaðurinn á RÚV eða Russell Crowe. Ef einhver hefur séð manneskjuna áður þá er hún fræg. Og ef þú ert ekki viss getur þú líka skrifað texta með myndinni og útskýrt fyrir fólki hver manneskjan er.

  Fræg manneskja og þú ert með örugg 20 stig.

  25 stig

  Útlandasjálfsmynd
  ÚtlöndHérna erum við loks komin í þungavigtar myndirnar. Um leið og þú nærð sjálfsmynd af þér í útlöndum ertu búin að toppa allar myndir sem þú hefur tekið hingað til. Í raun þarft þú að taka 25 matarmyndir til að fá jafn mörg stig og þú færð fyrir eina útlandasjálfsmynd. Og það er ansi langur tími í eldhúsinu.

  25 stig fyrir útlandasjálfsmynd og það er jafnvel of lítið gefið.

  30 stig

  Mynd með hættulegu dýri
  DýramyndTil að toppa útlandamynd þarftu að ná mynd af þér með hættulegu dýri. Gæði myndarinnar fara algerlega eftir því hversu líklegt dýrið er til þess að geta gengið frá þér.

  Þú færð ekki 30 stig fyrir mynd af þér með kind – En þú færð örugg 30 stig fyrir mynd af þér með górillu. Munum bara að sýna náttúrunni og öllum lifandi verum virðingu.

  40 stig

  Fallhlífar- eða köfunarsjálfsmynd
  HákarlFyrir venjulegt fólk er þetta hæsta stig sem þú getur náð. Þú tekur ekki betri sjálfsmynd en fyrir ofan eða neðan yfirborð jarðar. Þeir sem þora, þeir skora (40 stig).

  Valur er gott dæmi um það hvernig á að nota Instagram. Hann er með eina mynd. Og á þessari einu mynd er hann bæði í fallhlífastökki og í köfun (með hákarli). Hann myndi ekki setja inn matarmynd á Instagram þó það væri nautasteik með sósu. Hann hefur gefið 5 manneskjum leyfi til að fylgja sér og það eru Bill Gates, David Attenborough, Morgan Freeman, ég sjálfur og Ólafur Ragnar Grímsson.

  40 stig í einni tilraun.

  50 stig

  Sjálfsmynd í geimnum
  Geimmynd Svo ég viti til er ég eini Íslendingurinn sem hefur náð sjálfsmynd í geimnum. Það mætti því slá því fram að ég hafi sigrað Instagram leikinn. En því miður er ekki flass framan á símanum mínum (og það er mjög erfitt að taka sjálfsmynd þegar maður snýr símanum öfugt), þannig að það sést ekki mikið á myndinni. En samt sést nóg til að sjá að þetta er ég í geimnum.

  Þarna kemst ég í hóp með aðeins örfáum mönnum og konum sem hafa tekið sjálfsmyndir í geimnum. 50 stig takk fyrir – sem er töluvert meira en Neil Armstrong fékk fyrir að láta einhvern annan taka mynd af sér á tunglinu (-1 stig).

  Þá er það komið. Upptalning á flokkunum fjórtán. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er þessi leikur raunverulegur.

  Og við erum öll að taka þátt.

  1Samkvæmt rannsókn Riddarans nota 100% Íslendinga bæði Snapchat og Instagram (Úrtak: 7 manns).
  2Allar 7 manneskjurnar í úrtakinu voru fastar í leiknum.

  (Allar myndir eru birtar með góðfúslegu leyfi eigenda)

  Saurgerlar

  Um helgina fór ég í ferðalag á stað sem mér þykir mjög vænt um. Stað þar sem náttúran er í fyrirrúmi, fjöllin voldug og lækirnir tærir. Óspillt náttúra eins og hún gerist best.

  Ég bý nefnilega í miðri stórborginni. Í Reykjavík þar sem maður getur maður varla andað fyrir mengun. Þú getur ekki ræktað svo mikið sem einn tómat út í glugga án þess að hann deyji úr gróðurhúsaáhrifum. Og þú getur gleymt því að fá þér göngutúr á Miklubrautinni á morgnana, þú ert nefnilega svo rosalega mikið “fyrir öllum“. Allir eru að drífa sig – enginn að njóta.

  Þess vegna gat ég ekki beðið eftir því að komast í sveitina. Að njóta kyrðarinnar og náttúrunnar. Anda að mér hreina loftinu og drekka tæra vatnið – njóta.

  Ég gleymdi samt tannburstanum mínum. Það var það eina pirrandi við þessa ferð. Það er samt mikill misskilningur að það eigi að bursta sig daglega. Tannlæknar hafa alltaf talað um að það eigi að bursta sig 30 sinnum í mánuði. Allir sem þekkja tannlækna vita að þeir hafa aldrei sagt neinum að bursta tennurnar einu sinni á dag. Það væri jafn steikt og að segja að það þyrfti að bursta tennurnar í 12 sekúndur á klukkutíma fresti. Reglan er 30 sinnum í mánuði hvort sem þú gerir það allt sama daginn eða ekki. Og ég var búinn að bursta mig svona 47 sinnum fyrstu þrjá dagana í júlí þannig mér var slétt sama.

  Enginn Tannbursti

  Svona lítur enginn tannbursti út

  Eftir 5 tíma akstur yfir fjöll og heiðar var ég loks mættur í sveitasæluna. Selir í sjónum, fuglar á himnum og lækjarsprænur út um allt. Ég fór beint upp í skólann þar sem við gistum. Þar voru allir í óðaönn við að grilla, sötra og undirbúa sig fyrir sveitaball um kvöldið. En mitt eina markmið var að njóta, til þess var ég kominn.

  Sveitin

  Sveitasælan eins og hún gerist best

  Fyrstu þrjá tímana byrjaði ég á því að anda að mér hreina loftinu. Ég held ég hafi örugglega dregið andann á nokkurra sekúndna fresti allan tímann. En eftir þrjá tíma var ég kominn með leið á því og hætti að anda. En þá var komið að næsta skrefi – að drekka sveitavatnið. Svo tært, óspillt og laust við alla mengun frá stórborginni.

  Ég tók mér stöðu fyrir framan vaskinn og virti það fyrir mér. Ég hef aldrei séð neitt glærara. Meira að segja vatnið í klósettinu var girnilegt. Svo hallaði ég mér fram og byrjaði að þamba. Ég hef örugglega drukkið tvo lítra. Ég hætti ekki. Ég drakk vatn í öllum stellingum. Þetta var örugglega besta vatnsdrykkja sem bæði ég og þessi vaskur höfðum stundað. Þegar ég var búinn að ljúka mér af lokaði ég munninum og fór niður.

  Það var samt eitthvað skrítið bragð.

  Þegar ég kem niður er fólk út um allt. Sumir eru að borða og aðrir eru inn í skólastofu. En það sem allir eiga sameiginlegt er að þeir eru með vatnsflösku við hendina. “Hvað eru allir komnir í bland?” hugsaði ég og settist niður. Tara kærasta bróður míns sat á móti mér og ég spurði:

  Ég: Ertu með bland?
  Tara: Nei ég er bara með vatn.
  Ég: Afhverju ertu með það í flösku?
  Tara: Af því að það þarf að sjóða vatnið hérna áður en maður drekkur það.

  Sjóða vatnið? Þarna var ég alveg “Nei um hvað er hún að tala?

  Tara: Þú veist að það eru saurgerlar í vatninu hérna…
  Ég: Ha?
  Tara: Það eru saurgerlar í vatninu hérna.
  Ég: Saurgerlar í vatninu??
  Tara: Já, var enginn búinn að segja þér?
  Ég: Nei það er enginn búinn að segja mér!!
  Tara: Ó, ég hélt að allir vissu það…

  Svo byrjaði hún að hlægja. Og ég var að drekka svona 2 lítra af þessu.

  Næst fór fleira fólk að blanda sér í málið:

  Guðrún frænka: Þú veist það eru miðar út um alla veggi…
  Ég: Já ég kom ekkert hingað til að skoða einhverja miða!!

  Svo byrjuðu allir að hlægja, nema ég. Og ég var ekki einu sinni með tannbursta.

  Saurgerlar

  Miðarnir sem héngu útum alla veggi

  Og ég var á leiðinni ball. Saurgerlastrákurinn. “Góður nýji rakspírinn þinn Pálmar“. “Er þetta ný tegund af extra tyggjó?“.

  Oft heyrir maður að það að kyssa stelpur sem reykja sé eins og að sleikja öskubakka. En mig langar ekkert að heyra hvað er sagt um stráka sem drekka saurgerla. Og mér finnst eiginlega bara rangt að gera grín að því.

  Og fyrir þá sem vita ekki hvernig saurgerlar líta út þá eru þeir einhvern veginn svona:

  Saurgerlar

  Saurgerlar í Reykjavík

  Þarna voru draumar mínir um sveitasælu og óspillta náttúru orðnir að engu. En sem betur fer er ég kominn aftur í Reykjavík og þó ég geti varla andað fyrir mengun þá er það bara ekki svo slæmt.

  Sýningartímar í kvikmyndahúsum

  Margir hafa komið að tali við mig undanfarið og kvartað undan því hvað það er erfitt að fá gott yfirlit yfir sýningartíma í kvikmyndahúsum. Fólk reynir að skoða þetta í blöðunum eða á vefsíðum eins og kvikmyndir.is og midi.is en oft er bara ekki mikið að marka það sem þar stendur.

  Eitt það leiðinlegasta sem maður lendir í er að mæta of seint í bíó og missa af röðinni og auglýsingunum. Þá getur maður alveg eins horft á myndina bara í rólegheitunum heima hjá sér.

  Hér verður því besta yfirlitið um sýningartíma í kvikmyndahúsum landsins:

  Í bíó eru myndir sýndar klukkan 20.00 og 22.30.

  Nema stundum eru þær klukkan 20.00 og 22.40.

  Það er eiginlega engin leið að vita hvort að seinni sýningin hefjist klukkan 22.30 eða 22.40. Oft getur verið best að giska bara á hvað myndin er löng út frá plaggatinu.

  Ef það er mikið að gerast á plaggatinu þá er myndin örugglega frekar löng. En ef það er ekkert að gerast á plaggatinu er hún pottþétt mjög stutt.

  Sum kvikmyndahús sýna svo stundum myndir klukkan 21.00 en það verður eiginlega líka bara að giska hvaða kvikmyndahús það eru.

  The Weeknd – The Hills

  Þetta er nýjasta lagið í heiminum í dag.

  Það fjallar um mann sem hringir bara í fólk klukkan hálf 6 á nóttunni. Og þegar hann hringir er hann oftast búinn að klúðra einhverju eins og að velta bílnum sínum og vantar aðstoð. Hann virðist vera mjög leiður yfir þessari áráttu sinni og syngur þess vegna eins og hann sé alveg að fara að gráta.

  Og það skiljanlega því hann áttar sig á því að hann er smám saman að hrinda frá sér öllum vinum sínum sem eru orðnir langþreyttir á því að vera vaktir upp um miðjar nætur útaf einhverju veseni.

  Eins og öllum góðum lögum sæmir færir þetta lag því mikilvægan boðskap: Verið dugleg að rækta sambandið við vini ykkar. Ekki hafa bara samband um miðjar nætur þegar ykkur vantar eitthvað. Þá endið þið einmanna og grátandi eins og Weeknd.

  En textinn er samt alls ekki aðalatriðið í þessu lagi heldur syngur hann fáránlega smooth og takturinn er sjúkur. Þetta lag er því komið beint í efsta sætið yfir bestu lög ársins 2015!

  Augljóstir kostir:
  1. Englarödd
  2. Mikilvægur boðskapur
  3. Besta lag ársins 2015

  Augljósir gallar:
  1. Lagið ætti að heita “Hálf 6” en ekki The Hills sem tengjast laginu ekki á neinn hátt.

  Subway: Hita eða rista?

  Ég fór á Subway í gær og pantaði mér bát dagsins.

  Fyrst fékk ég þessa venjulegu spurningu sem allir Íslendingar hafa verið spurðir svona 1.000 sinnum að: “Viltu hita eða rista?”

  Ég hef aldrei skilið þessa spurningu. Báðar aðferðir hita bátinn. Afhverju fá allir Subway starfsmenn á landinu þau fyrirmæli að orða þetta svona?

  Þegar ég verð forstjóri á Subway verður henni breytt í:
  Viltu hita bátinn í örbylgju eða rist?” (meikar meiri sens)
  Eða bara:
  Öbb’eða rist?” (hnitmiðað)

  En þarna ákvað ég að of lengi hafi starfsmenn á Subway fokkað í hausnum á mér og ákvað að fokka aðeins til baka:

  Hún: Viltu hita eða rista bátinn?
  Ég: Nei takk. En geturu kælt hann fyrir mig?
  Hún: Haaa.. kæla hann?
  Ég: Já bara sett hann aðeins í kælinn fyrir aftan þig
  Hún: Uhh… ertu að meina þetta eða?
  Ég:

  Hún heldur á bátnum og lítur í kringum sig og á strákinn sem er að vinna með henni.

  Ég: Settu hann inn bara í 1 mínútu, það er svona passlegur kuldi

  Þá snýr hún sér við og tekur ráðvilt eitt skref í átt að kælinum með bátinn…

  En þá viðurkenni ég að ég hafi verið að grínast og mínu mindfokki þar með lokið. En um leið byrjar hennar mindfokk aftur:

  Hún: En viltu þá hita eða rista?

  Rick Ross ft. The Weeknd – In Vein

  Þetta lag er að mínu mati besta lag ársins 2014:

  Og það er eiginlega hreint ótrúlegt að The Weeknd komi bæði við sögu í “Besta lagi ársins 2014” og “Besta lagi ársins 2015” (sjá hér) – miðað við það hvað hann er lélegur söngvari.

  Málið með The Weeknd er að hann syngur alltaf eins og hann sé að fara að gráta. Líka þegar hann syngur gleðileg lög eins og Afmælissönginn og 17. júní lagið. Það er alls ekki það að hann sé falskur því hann nær að halda tónum nokkuð vel. Ég held bara að það þurfi einhver að hugga hann áður en hann syngur næsta lag.

  Nú hef ég mikla þekkingu á tónlistarsögunni og tónlistarmönnum almennt og ég held að flestir séu sammála mér að þetta lag væri mikið betra ef Titanic söngkonan eða jafnvel breski söngvarinn myndi syngja það.

  En ekki misskilja mig – ég elska þetta lag. Ég veit ekki hvað ég hef hlustað oft þegar ég er að taka vel á því í ræktinni eða sit slakur heima við tölvuna. Örugglega oftar en 1.000 sinnum. Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt hvernig það er sungið. Ég verð eignilega bara pirraður þegar ég hugsa til þess hvað hefði getað orðið ef hann hefði sungið það með venjulegri rödd en ekki svona hátt uppi (C í staðin fyrir A fyrir þá sem hafa vit á tónlist).

  Ef þeir hefðu notað annað söngvara hefði ég líklega valið þetta bæði sem “Besta lag ársins 2013” og “Besta lag ársins 2014“. En þar sem lagið er eins og það er – þá nær það eingöngu að vera besta lag ársins 2014.

  Bara venjulegt froskamyndband

  Ég held að þessir bræður séu stofnendur og eigendur Youtube:

  Áður en Youtube var til var enginn vettvangur fyrir virkilega góð myndbönd að njóta sín. Eina leiðin til að geta séð myndbönd var að bíða í viku eftir næsta þætti af “Fyndin Fjölskyldumyndbönd“. En þegar þessir bræður höfðu gert þetta myndband áttuðu þeir sig á því að þeir voru með eitthvað merkilegt í höndunum sem þeir gátu hvergi birt. Og þeir ákváðu að breyta framgangi sögunnar.

  Jújú þeir áttuðu sig á því að þeir gætu auðveldlega sent þetta í Fyndin Fjölskyldumyndbönd og unnið 10.000 USD verðlaunaféð. En þeir voru að hugsa stærra en það, þetta eru business strákar. Þeir vildu ekki að eingöngu þeir útvöldu sem voru með áskrift að Stöð 2 fengu að njóta þess – þetta myndband var fyrir allan heiminn.

  Allir þekkja söguna síðan þá. Þeir stofnuðu Youtube (held ég) í kringum myndbandið sem er nú orðin þriðja vinsælasta vefsíða heims. Í dag eru þeir líklega milljarðamæringar eftir að hafa selt Youtube til Google fyrir 1,6 milljarð USD árið 2006. Einhvern tímann gerði fólk grín að þessu myndbandi en ég sé engan hlægja núna.

  Tengingin
  Þetta myndband hefur líka sérstaka þýðingu fyrir okkur bræðurna. Strákarnir í myndbandinu eru jafnaldrar okkar og þeir litu nákvæmlega eins út og við gerðum. Og ekki bara það heldur náðu þeir sömu mýkt og við í hreyfingum og dansi. Hefðum við verið fyrri til þá ættum við 800 milljarða á mann í dag – við létum bara ekki vaða.

  Síðan þá höfum við alltaf verið fúlir út í þessa gæja. Ef þið sjáið þessi 10.532 dislike sem eru á myndbandinu þá get ég fullvissað ykkur um að við eigum tvö þeirra. Lífið er kapphlaup og þetta snýst allt um að vera fyrstur. Við gerðum 15 myndbönd sem ÖLL voru betri en þeirra myndband, en ekkert þeirra náði vinsældum. Við vorum alltaf bara þekktir sem bræðurnir sem voru að reyna.

  “Þetta er flott hjá ykkur. En hafið þið séð Crazy Frog bræðurna? Þeir eru GEGGJAÐIR!”

  Ég sendi þeim póst reglulega til að láta þá vita að þeir skuldi mér pening. Þeir lofa alltaf öllu fögru en svo kemur ekkert.

  Boðskapurinn í þessari sögu er sá að láta vaða. Ef þú ert með hæfileika eða hugmynd láttu hana verða að veruleika. Því um leið og þú hikar eru einhverjir bræður út í heimi búnir að hafa af þér 800 milljarða.