Síðasta sumar kynntist ég miklum meistara. Nikulás heitir hann og er með skemmtilegri strákum sem ég hef kynnst. Áhugasamur og einlægur og alltaf tilbúinn í gott spjall. Við unnum saman á Mývatni og hann lífgaði mikið upp á dagana þar.
En þrátt fyrir alla sína kosti þá var hann samt ekki fullkominn. Flestir hafa að minnsta kosti einn galla og þar var hann engin undantekning. Í hans tilfelli var það eldamennskan. Það var ekki það að hann væri lélegur kokkur. Meira svona hvað hann ákvað að elda og hvenær.
Við bjuggum tíu saman í lítilli íbúð við Mývatn. Við lifðum saman í sátt og samlyndi og tókum tillit til hvors annars. En það var þó eitt sem klikkaði ekki. Í hvert sinn sem við hin vorum skriðin upp í rúm til að fara að sofa, þá sótti Nikulás sér pönnu og byrjaði að steikja beikon.
Þetta gerðist alltaf nákvæmlega á miðnæti. Og beikonið mátti sko ekki vera mjúkt, það þurfti alltaf að vera harðbrasað.
Og það er ekki eins og við höfum verið með eitthvað loftræstikerfi í eldhúsinu. Þar voru tveir litlir gluggar, sem hann passaði sérstaklega að hafa lokaða. Þannig að öll brælan fór beint inn í herbergið mitt. Og örugglega hjá hinum líka. En í mínu herbergi var brælan samt svo mikil að ég gat ekki ímyndað mér að það væri einhver bræla eftir til að fara í hin herbergin líka.
Og svona liðu dagarnir. Enginn gat sofið og öll íbúðin angaði af beikoni. Rúmfötin, handklæðin og nærfötin – nefndu það.
En eftir að hafa búið saman í 10 daga þá ákváðum við að halda húsfund. Og þar var ákveðið, algerlega ótengt Nikulási og beikoninu hans, að það mætti ekki að steikja beikon eftir klukkan 22.00 á kvöldin. Þetta var samþykkt með níu atkvæðum á móti einu og þar með var þetta vandamál úr sögunni.
En þessi saga fjallar samt ekki um beikonbræluna.
Þessi saga er um aðra lykt:
Þetta kvöld sat ég í herberginu mínu með lokaða hurð. Ég var að vinna í tölvunni þegar ég byrja að finna slæman fnyk ágerast inn í herberginu mínu. Á sama tíma er kallað á mig úr eldhúsinu:
Nikulás: Pálmar getur þú nokkuð aðstoðað mig aðeins?
Ég var ekki að nenna því að vera truflaður og kallaði á móti í gegnum hurðina:
Pálmar: Hvað ertu að pæla? Og hvaða lykt er þetta?
Nikulás: Hefur þú oft eldað kjúkling? Getur þú hjálpað mér að meta hvort það sé í lagi með þessa kjúklingabringu?
Um leið og hann sagði þetta þá mundi ég eftir því að hafa séð staka kjúklingabringu í glærum poka í litlu hvítu plastglasi inn í ísskáp mörgum dögum áður.
“Guð minn góður, ég veit strax að þessi kjúklingabringa er það ónýtasta sem til er” hugsaði ég og stóð upp. Þegar ég opnaði hurðina var það eins og að ganga á vegg. Þetta var viðbjóðslegasta lykt sem ég hafði fundið. Ég á í raun erfitt með að lýsa henni en rotnandi hvalkjöt í holræsi er örugglega nálægt því.
Og þá sá ég sjón sem ég mun aldrei gleyma. Þarna stóð Nikulás, meistari, með nefið á sér bókstaflega ofan í plastglasinu með kjúklingabringunni, nýbúinn að fjarlægja hana úr pokanum.
“Okei gubb” hugsaði ég, “Hvað er að og hvernig í fjandanum fer hann að þessu án þess að æla??“. Það næsta sem gerist er að hann lítur upp og horfir á mig rosalega óviss á svipinn.
Nikulás: Ég er ekki viss hvort það sé í lagi með þessa bringu eða ekki.
“Ekki viss?? Hvað meinar hann?!?” hugsaði ég. Fyrir mér var þetta jafn augljóst og að maður ætti ekki að borða úldið fuglshræ sem maður finnur út í fjöru.
Nikulás: Getur þú fundið lyktina og hjálpað mér að dæma?
Pálmar: Finna lyktina? Ég finn alveg lyktina hingað! Hentu þessari bringu núna!
Nikulás: Já en… ég er ekkert búinn að eiga hana það lengi, held ég.
Svipurinn á honum gaf vel til kynna hvað þessi bringa skipti hann miklu máli. Hann var ekki tilbúinn til þess að gefa hana eftir svo auðveldlega. Ég steig einu skrefi nær og leit ofan í glasið. Bringan var fjólublá á litinn.
Pálmar: Þessi kjúklingabringa er fjólublá! Þú þarft að henda henni núna!!
Ég sá hvernig eymdin færði sig yfir andlitið á honum þegar hann áttaði sig á stöðunni. Og ég skildi hann. Við vorum öll fátækir námsmenn. Við lifðum á höfrum og skyri (og beikoni). Að kaupa kjúklingabringu var eitthvað sem við leyfðum okkur í mesta lagi einu sinni yfir sumarið. Og það átti enginn að þurfa að upplifa það að henda sinni eigin bringu.
Stundin þegar hann gekk með bringuna sína í átt að ruslafötunni var sorgleg. Ég stóð þétt við bakið á honum og var með tárin í augunum þegar ég sá hana hverfa í ruslið.
Ég veit ekki hvað bringan var búin að vera í ísskápnum lengi. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að Nikulás hafi átt þessa bringu í mörg ár áður en hann kom á Mývatn. Einhverskonar gælubringa sem hann tekur með sér hvert sem hann fer. Sem gerir endirinn á sögunni bara enn sorglegri ef eitthvað er.
Þennan dag má segja að ég hafi bjargað lífi Nikulásar. Hann þakkaði mér ekki fyrir það þá því hann var svangur og ekki að hugsa skýrt. En í dag þakkar hann mér lífsgjöfina í hvert sinn sem ég hitti hann.